shape of despair – monotony fields (frumsýning)

Ef það er eitthvað sem okkur vantar nú þegar sumarið er á næsta leyti þá er það finnskt þunglyndisrokk Shape of Despair.

í tvo áratugi hefur þessi finnska hljómsveit gert sitt besta til þess að kæfa þá litlu vonarglætu sem skín inn í sálartetur aðdáenda hennar. Líkt og rigningin fylgir sumrinu í Reykjavík hefur depurðin og þunglyndið fylgt hinum þungu jarðarfararsálmum Shape of Despair allt frá því að fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út um aldamótin.

Fjórða plata sveitarinnar, Monotony Fields, kemur út um miðjan júní hjá Season of Mist, og það er vel við hæfi, með hækkandi hitastigi, að kíkja á eins og eitt lag af plötunni.

kontinuum á diskinn minn

Kyrr, önnur breiðskífa Reykvísku rokksveitarinnar Kontinuum kom út í dag. Líkt og Earth Blood Magic var platan gefin út á vegum ensku útgáfunnar Candlelight Records.

Gagnrýnendur virðast ánægðir með skífuna og fékk Kyrr meðal annars 9 af 10 á vefsíðunum Metal.de og á Avenoctum.com.

Platan er þegar komin til landsins og er hægt að nálgast hana í Smekkleysu, Lucky Records og Geisladiskabúð Valda. Einnig er hægt að panta hana beint frá hljómsveitinni.

drudkh – a furrow cut short (frumsýning)

Það gleður Andfarann mjög að fá að frumsýna tíundu plötu úkraínsku djöflarokkasveitarinnar Drudkh fyrir íslenskum þungarokksaðdáendum.

Líkt og á fyrri plötum er allt fullt af atmói og tilfinningaþrungnu djöflarokki. Án efa hafa margir rölt í gegnum Heiðmörkina með fyrri plötur Drudkh í eyrunum og telur undirritaður að þessi plata eigi eftir að vera nýtt til hins sama í náinni framtíð.

Platan kemur út tuttugasta apríl á vegum Season of Mist og hægt er að panta hana héðan.

shining – ix – everyone, everything, everywhere, ends (frumsýning)

Hvort sem þú hatar lífið, lífið hatar þig eða ykkur er bara slétt sama um hvort annað þá er þetta platan fyrir þig! Níunda breiðskífa sænsku sjálfseyðingarrokkaranna í Shining er tilvalin fyrir fólk með dálæti á djöflarokki á þunglyndu nótunum.

Skífan kemur út tuttugasta apríl næstkomandi á vegum Season of Mist. Hægt er að panta hana hérna.

vallenfyre staðfest á eistnaflug

Breska mulningsdauðarokkssveitin Vallenfyre er á leiðinni til landsins, og verður að segjast að það eru svo sannarlega góðar fréttar fyrir okkur aðdáendur dauðarokksins hér á landi. Hljómsveitin mun spila á Eistnaflugi föstudags 10. júlí og stíga á svið rétt upp úr átta.

Screen Shot 2015-04-15 at 13.55.37

Eistnaflug hefst þetta árið 8. júlí og eins og alltaf er það haldið á Neskaupstað. Ásamt mörgu af því besta sem er að finna í íslensku rokksenunni munu hljómsveitirnar Conan, Rotting Christ, Carcass, Inquisition, Enslaved, Lucifyre, Vampire, Kvelertak og Behemoth koma fram og verður því af nógu að taka þarna í ár.

Vallenfyre, sem stofnuð var 2010, samanstendur af þeim Gregor Macintosh, Hamish Hamilton Glencross, Scoot og Adrian Erlandsson. Eflaust eru nöfn þeirra kunnugleg en félagarnir hafa gert garðinn frægan með hljómsveitum á borð við Doom, At the Gates, My Dying Bride og Paradise Lost.

Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, A Fragile King, árið 2011 og í fyrra kom út önnur platan, Splinters. Báðar plöturnar voru gefnar út í gegnum Century Media, en hin hljómsveit Gregor Macintosh, Paradise Lost er einnig á mála hjá þeim.

Andfarinn er mjög spenntur fyrir þessu. Eflaust gráta sumir Godflesh en Vallenfyre ætti að hjálpa þeim fljótt yfir þennan erfiða hjalla.

hark – palendromeda (frumsýning)

Upp úr ösku velska rokkbandsins Taint reis HARK. Á sextán ára ferli sínum gaf Taint út fimm plötur, þar á meðal tvær í gegnum hina virtu Rise Above útgáfu, sem fengu mikið lof hjá aðdáendum hipparokks.

En það er því miður frekar algengt að góðir hlutir endi, stundum jafnvel of snemma. Eins og við vitum þó er oft ný byrjun á eftir endir og í þessu tilfelli er það Crystalline, fyrsta breiðskífa HARK.

Breiðskífan sú kom út fjórtánda mars síðastliðinn á vegum Season of Mist, sem er heimili strákanna okkar í Sólstöfum og jafnframt heimili Inquisition og Rotting Christ, en þær hljómsveitir munu heimsækja okkur í sumar og koma fram á Eistnaflugi.

Crystalline var hljóðblönduð af Kurt Ballou, sem margir þekkja úr harðkjarnasveitinni Converge, sem hefur án efa bætt þó nokkrum þunga við nýtískulegt hipparokk velsku rokkaranna.

Ef fólk er á leiðinni til meginlandsins á næstu dögum og hefur áhuga á að sjá smá þungt rokk þá eru HARK-liðar á leið á ferðalag með amerísku rokksveitinni Prong í næstu viku. Upplýsingar um þann túr má sjá hér fyrir neðan myndbandið.


Hark_admat_Prong_EU_2015_small