gost – behemoth

Nýjasta æðið í dag er að semja tónlist sem ætti best heima í hryllingsmyndum og b-klassa myndum sem átti sína bestu daga fyrir rúmum þrjátíu árum. Þáþráin er sterk þessa dagana og fólk leitar grimmt í gömlu góðu tímana þar sem hvít jakkaföt yfir bleika stuttermaboli voru það heitasta og karlmennskan var mæld í hnittnum einlínungum. Þetta voru svo sannarlega góðir tímar.

Líkt og rauð sundskýla Hasselhoffs átti þetta allt sinn tíma og virtist sem flestir hefðu gleymt þessu, helst voru það menn eins og tvíeykið í Zombi sem minntu öðru hverju á þetta merkilega tímabil sem stóð of stutt yfir. Nú á seinni dögum hefur flætt yfir okkur bylgja af nýjum listamönnum sem leita í þennan brunn eftir visku og getu og er undirritaður afskaplega ánægður með áhuga fólks á þessu.

Finnska plötuútgáfan Blood Music hefur verið nokkuð dugleg upp á síðkastið að færa okkur athyglisverðar plötur með Perturbator og Dan Terminus og ekki má gleyma löndum þeirra hjá Svart Records sem kynntu Andfarann fyrir Nightsatan hér um árið. Það er einmitt Blood Music sem stendur að útgáfu breiðskífunnar Behemoth með bandaríska tvíeykinu í GosT.

Þarna er sótt í smiðju John Carpenter, Goblin og álíkra listamanna. GosT blandar hryllingi níunda áratugarins saman við diskósturlun vöðvabúntsmynda og úr verður ágætis afþreyingartónlist sem virkar jafnvel í einbeittar lærdómsbúðirnar eða partíhartið sem á eftir koma.

gost • blood music · 28. apríl 2015

slidhr komin á mála hjá terratur possessions og nýtt lag komið á netið

Írska djöflarokkssveitin Slidhr mun gefa út smáskífu hjá norsku útgáfunni Terratur Possessions seinna á árinu. Upptökur fóru fram hér á landi í Studio Emissary og sá Stephen Lockhart, bassaleikari Sinmara, um þær.

Meiri tengingu við Sinmara er að finna því Bjarni Einarsson, trommari Sinmara, trommar einnig í Slidhr og kom einnig fram á síðustu breiðskífu sveitarinnar, Deluge, sem kom út fyrir tveimur árum á vegum Debemur Morti.

nýtt lag með arcturus

Margir bíða eflaust spenntir eftir fimmtu breiðskífu norsku útumalltrokksveitarinnar Arcturus. Hljómsveitin, sem inniheldur meðal annars núverandi og fyrrverandi meðlimi Mayhem, Ved Buens Ende, Fimbulwinter, Ulver og Borknagar, mun gefa út Arcturian 8. maí í gegnum þýsku útgáfuna Prophecy Productions.

shining – framtidsutsikter

Satan rís! Upp úr sæ illsku, vonleysis og myrkurs kemur Kvarforthinn og breiðir út boðskap niðurrifs sálar og líkama.

Já, líf, ljós og unaður er ef til vill ekki það sem fólk tengir við Niklas Kvarforth og Shining en kannski á það eftir að breytast þegar IX – Everyone, Everything, Everywhere, Ends kemur út 20. apríl næstkomandi á vegum Season of Mist. Hver veit hvað framtíðin mun bera í skauti sér?

weedeater – cain enabler

18. maí kemur fimmta breiðskífa hinnar alræmdu amerísku sorarokksveitar Weedeater. Goliathan er heiti skífunnar og segja meðlimir hljómsveitarinnar hana stútfulla af Suðurríkjametal, gálgahúmor, kannabis og eldvatni. Athyglisverð blanda þar á ferð sem færir eina senu úr gamalli Chevy Chase ræmu efst í hugann.

En nú er málið að hlusta á smá Weedeater! Season of Mist var svo elskulegt að leyfa Andfaranum að frumsýna nýtt lag, „Cain Enabler“, í dag. Svo nýtið ykkur tækifærið, slappið af og kíkið á lagið.

suchthaus breiðir yfir mayhem með hellhammer berjandi húðir

Það er spurning hvort Hellhammer, trommari djöflarokkssveitarinnar Mayhem, hafi farið yfir einhver mörk núna því kappinn tók þátt í ábreiðu norsku framúrstefnurokkaranna Suchthaus á „Life Eternal“, eilífðarslagara hinna fornu meistara.

Suchthaus er sköpunarverk listamannsins Rene Hamel sem kallar sig þarna Spacebrain, en hann hefur skapað margar sviðsmyndir þær sem Mayhem hefur notað á síðustu árum. Með honum eru Hellhammer, Fruen og hinn íslenski Ingvar the Last Viking.

Kíkið á og njótið vel.

kontinuum – kyrr

Kontinuum. Fimm ára gömul hljómsveit skipuð reynsluboltum úr Potentiam, Momentum, I Adapt, Thule og svo framvegis. Þessir menn hafa komið víða við, svo vægt sé til orða tekið.

Fyrir þremur árum gaf hljómsveitin út sína fyrstu skífu, Earth Blood Magic, sem var jafn góð og hún var sundurleit. Í stað þess að vera byrjun á nýju ferli var frekar sem verið væri verið að loka á eldra og þar var að finna lög sem hefði mátt búast við á útgáfu frá Potentiam.

Á Kyrr er nýtt ferli í gangi og í raun ný hljómsveit, einungis Birgir er eftir af þeim sem komu nálægt fyrstu plötunni og við hafa bæst fjórir meðlimir, þar af tveir úr Potentiam. Útkoman er heildsteypt skífa full af gotaskotnu rokki.

Rokk, ekki þungarokk. Það þarf að taka það fram. Af hverju? Vegna þess að fólk virðist vera afskaplega duglegt við að skella hljómsveitinni í þann flokk og gleyma henni svo. Kontinuum á ef til vill sínar rætur í þungarokkinu en hefur fjarlægst þær mjög svo á Kyrr.

Til dæmis er „Í Huldusal“ ekki útvarpsvænasta lagið á skífunni, ef sú hugsun skaut upp kollinum hjá þér, það er ekki „Fjara“ þeirra Kontinuum liða. Öll platan er mun léttari en sú fyrri en að sama skapi er hún heilsteyptari og þar af leiðandi betri. Allavega að mínu mati.

En lögin, eru þau öll jafn góð? Titillagið er í sérstöku uppáhaldi hjá undirrituðum sem og Rauði straumurinn en ég átti erfitt með að velja úr. Platan fengi eflaust fullt hús stiga hjá mér ef ekki væri fyrir klisjukennt opnunarlagið. Það hefði alveg mátt missa sín.

Kontinuum • Candlelight • 20. apríl 2015